Háskólinn í Reykjavík, Tækniskólinn, IÐAN-fræðslusetur og Rafiðnaðarskólinn semja um þróun fagháskólanám í iðn-, verk,- og tækninámi.

 

HR, Tækniskólinn, IÐAN og Rafiðnaðarskólinn hafa samið um samstarf varðandi þróun fagháskólanáms fyrir iðnaðarmenn í byggingagriðngreinum, rafiðngreinum og vél-, málm- og bílgreinum.

Verkefnið snýst í meginatriðum um að rýna og þróa nám ætlað iðnsveinum, þ.e. iðnmeistarapróf, iðnfræði og tæknifræði, með það fyrir augum að þessar námsbrautir myndi eins góða samfellu og kostur er og uppfylli þarfir atvinnulífsins og væntingar menntamálayfirvalda, vinnumarkaðar og skóla um þekkingu, leikni og hæfni. 

Markmið verkefnisins er að bæta gæði iðn- og tæknináms og stækka verulega þann hóp sem sækir iðnnám, samhliða því að fjölga verulega þeim sem bæta hagnýtu framhaldsnámi ofan á iðnnám til sveinsprófs með því að þróa aðgengilegar leiðir til að auka flæði milli skólastiga samhliða bættum gæðum náms.  Með þessu verði komið til móts við þarfir atvinnulífsins fyrir vel menntað fólk sem hefur verknám að baki. Verkefnið er þróunarverkefni, einskorðað við iðnmenntun í byggingar-, málm-, vél-, bíl- og rafiðngreinum og nám á háskólastigi sem hentar í framhaldi af iðnnámi í þeim greinum. Um leið er stefnt að því að verkefnið geti orðið fyrirmynd sem hægt verði að yfirfæra á aðrar iðngreinar.

Einnig verða þróaðir og skilgreindir ferlar svo að unnt verði fyrir háskóla að votta háskólaeiningar (ECTS) sem kenndar yrðu af framhaldsskólum og/eða menntaveitum iðnaðarins og  greind tækifæri til raunfærnimats fyrir starfandi iðnaðarmenn inn í iðnfræði og tæknifræði og þróuð aðferðafræði fyrir slíkt.

Verkefnið hefur hlotið vilyrði um styrk úr fagháskólanámssjóði ASÍ, BSRB og SA ásamt því að sótt hefur verið um framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þróunar námsins.